Fundir stýrihóps og ráðstefna Hinsegin Lífsgæða í Sollentuna í Svíþjóð

Undirbúningur fyrir ráðstefnu Hinsegin Lífsgæða í Sollentuna í Svíþjóð hófst með tveimur undirbúningsfundum stýrihópsins, sá fyrri haldinn í kjölfar ráðstefnu sem fram fór á Akureyri í október síðastliðnum. Á fundunum var farið yfir erindi og umræðufundi sem fylgdu ráðstefnunni á Akureyri, auk heimsókna í sjö skóla á landsbyggðinni. Öll erindi voru tekin upp og hluti þeirra nýttur í skólaheimsóknum ásamt fyrirlesurum. Í lok allra funda voru haldin vinnusmiðjur þar sem rætt var um öryggi hinsegin nemenda og áskoranir sem þeir standa frammi fyrir í skólakerfinu.

Þessi vinna lagði grunn að dagskrá næstu ráðstefnu sem haldin var í Sollentuna í byrjun apríl. Undirbúningshópurinn, sem starfar innan verkefnisins LGBTQ+ vellíðan barna og ungmenna í skólum, hittist á netinu í febrúar (ZOOM) og fór yfir hugmyndir að dagskrá. Í hópnum voru Kristina Thunberg (samfélagsfræðikennari), Jessica Fröjd (skólaráðgjafi), Davíð Samúelsson (verkefnastjóri NIKK-verkefnisins), Fannney Kristjánsdóttir (jafnréttisfulltrúi og framhaldsskólakennari), Bartel Nolsöe Paulsen (framhaldsskólakennari) og Maud Julianna Næs (framhaldsskólakennari).

Heimsóknir og fræðsla í Sollentuna

Stýrihópurinn dvaldi í Sollentuna dagana 31. mars og 1. apríl þar sem fram fór fræðsla og gagnkvæm miðlun reynslu. Fyrri daginn heimsótti hópurinn Tegelhagens Skola, þar sem farið var í kynningu og skoðunarferð um skólann. Að því loknu tóku þátttakendur þátt í tveimur kennslustundum með nemendum, þar sem fjallað var um málefni hinsegin fólks með fjölbreyttum kennsluaðferðum.

Síðar sama dag heimsótti hópurinn samtökin RFSU – Sænsku samtökin um kynfræðslu, þar sem fundur var haldinn með Sonju Ghaderi. Hún kynnti sögu samtakanna og starf þeirra, sérstaklega með nemendum úr fjölmenningarlegum bakgrunni, og ræddi áskoranir í samtali um kynhneigð og kyngervi.

Daginn eftir var heimsótt Turebergsskolan, þar sem um 95% nemenda eru af erlendum uppruna. Skólastjóri kynnti starf skólans og ræddi bæði kosti og áskoranir slíks skólaumhverfis. Þá gafst hópnum tækifæri til að taka viðtöl við kennara og sitja kennslustundir.

Fræðsluþing og alþjóðlegt samstarf

Samhliða heimsóknunum var haldið fræðsluþing í Edsbergsskolan þar sem yfirskriftin var „Fjölbreytni og valdefling hinsegin nemenda“. Þar var fjallað um hvernig kennarar og starfsfólk skóla geta sýnt stuðning og eflt öryggi hinsegin nemenda. Kennarar, skólastarfsmenn, skólahjúkrunarfræðingar og ráðgjafar í Sollentuna voru boðaðir til fundarins. Kristina Thunberg og Jessica Fröjd báru ábyrgð á undirbúningi.

Þátttakendur frá NIKK-verkefninu á Íslandi og í Færeyjum tóku virkan þátt, þar á meðal Davíð Samúelsson, Fannney Kristjánsdóttir, Bartel Nolsöe Paulsen og Jóhann Þ. Þórðarson, vefstjóri verkefnisins.

Ráðstefnan - fræðsla og reynsla úr skólastarfi

Ráðstefnan hófst með kynningu á verkefninu og stuttu erindi Kristinu Thunberg og Jessicu Fröjd, þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að styðja hinsegin nemendur og bæta öryggi þeirra í skólum. Davíð Samúelsson og Fannney Kristjánsdóttir kynntu hugmyndafræði NIKK-verkefnisins og ræddu ábyrgð kennara og starfsfólks í skólum gagnvart velferð allra nemenda.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Sonja Ghaderi frá RFSU. Hún fjallaði um starf með ungu fólki í fjölbreyttu samfélagi, mikilvægi sýnileika hinsegin fólks og virðingar í skólaumhverfi, og benti á bakslag í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks. Að loknu erindi svaraði hún spurningum þátttakenda.

Nemandi úr Rudbeck-framhaldsskólanum í Sollentuna flutti erindi þar sem hún sagði frá Rainbow-hópnum í skólanum. Hún lýsti reynslu hinsegin nemenda af einelti, einangrun og skorti á skilningi, bæði meðal nemenda og starfsfólks, og svaraði spurningum að lokinni frásögn.

Bartel Nolsöe Paulsen, fulltrúi Færeyja í NIKK-verkefninu, fór yfir stöðu hinsegin nemenda í færeyskum skólum. Hann benti á að mikil framför hefði átt sér stað á undanförnum árum og sýnileiki hinsegin fólks aukist, meðal annars með Hinsegin dögum sem haldnir hafa verið frá árinu 2005. Jafnframt ræddi hann þær áskoranir sem fylgja litlu og trúarlega mótuðu samfélagi.

Í lok ráðstefnunnar tóku yfir 100 þátttakendur þátt í vinnusmiðju undir stjórn Kristinu Thunberg og Jessicu Fröjd, þar sem fjallað var um helstu áskoranir hinsegin nemenda í skólum.

Næstu skref

Næsti fundur stýrihópsins verður haldinn í samræmi við verkefnaáætlun í Færeyjum í október. Stýrihópurinn kemur næst saman í byrjun maí til að fara yfir dagskrá og undirbúning.

Previous
Previous

Ráðstefna og samstarfsfundir Hinsegin Lífsgæða í Færeyjum

Next
Next

Námsstefna Hinsegin Lífsgæða á Akureyri og skólaheimsóknir víða um land