Námsstefna Hinsegin Lífsgæða á Akureyri og skólaheimsóknir víða um land

Nú er lokið heimsóknum fulltrúa Hinsegin Lífsgæða í skóla á landsbyggðinni í kjölfar námsstefnu sem félagið hélt á Akureyri 11. október 2024. Heimsóttir voru alls sex skólar í öllum landsfjórðungum – á Egilstöðum, Hellu, Húsavík, Blönduósi, í Borgarnesi og í Vesturbyggð. Markmið heimsóknanna var að efla stuðning, miðla þekkingu og skapa vettvang fyrir samtal um stöðu og líðan hinsegin nemenda í skólum á landsbyggðinni.

Námsstefnan og eftirfylgni hennar fóru fram undir yfirskriftinni Að tilheyra, sem vísar til grundvallarþarfar allra barna og ungmenna fyrir öryggi, viðurkenningu og inngildingu í skólaumhverfi sínu. Sérstök áhersla var lögð á stöðu hinsegin ungmenna í dreifbýli, þar sem aðgengi að stuðningi og sýnileika getur verið takmarkaðra en á höfuðborgarsvæðinu.

Öruggara skólaumhverfi og aukin inngilding

Á námsstefnunni var fjallað um leiðir til að vinna gegn jaðarsetningu og mismunun, auka inngildingu hinsegin nemenda og styrkja tengsl milli skóla, fjölskyldna og nærsamfélags. Þá var rætt hvernig bæta megi stuðning við hinsegin nemendur og aðstandendur þeirra í minni samfélögum, þar sem persónuleg tengsl og félagsleg viðmið geta bæði verið styrkur og áskorun.

Í umræðum kom skýrt fram að skólar gegna lykilhlutverki í lífi hinsegin ungmenna á landsbyggðinni – oft eru þeir einn af fáum stöðum þar sem mögulegt er að skapa öruggt rými fyrir sjálfsmyndarsköpun, fræðslu og opið samtal.

Kennarar og annað starfsfólk þurfa því bæði þekkingu, verkfæri og faglegan stuðning til að geta sinnt þessu mikilvæga hlutverki.

Fjölbreytt erindi og dýrmæt innsýn

Meðal fyrirlesara á námsstefnunni var Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, sem flutti erindið Hinsegin í sveitinni. Ugla hefur um árabil verið leiðandi rödd í baráttu fyrir réttindum transfólks á Íslandi og deildi bæði persónulegri reynslu og innsýn í þær áskoranir sem hinsegin fólk mætir í dreifðum byggðum.

Dr. Bergljót Þrastardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, fjallaði um hinsegin veruleika í skólum á landsbyggðinni. Hún kynnti niðurstöður nýlegrar könnunar á vegum Hinsegin Lífsgæða um stöðu hinsegin nemenda í nokkrum sveitarfélögum, auk þess að vísa í eldri skólakannanir. Niðurstöðurnar undirstrikuðu meðal annars mikilvægi sýnileika, skýrrar stefnumótunar og stuðningskerfa innan skólanna.

Fannney Kristjánsdóttir, jafnréttisfulltrúi og kennari við Verkmenntaskóla Austurlands, flutti erindi um að byggja brýr – hvernig hægt sé að styrkja skólaumhverfið með jákvæðum hætti og valdefla bæði nemendur og starfsfólk. Hún lagði áherslu á að breytingar þurfi ekki alltaf að vera flóknar eða umfangsmiklar, heldur geti skapast með meðvituðum aðgerðum, opnu samtali og samvinnu.

Davíð Samúelsson, verkefnastjóri Hinsegin Lífsgæða, sagði frá tilurð verkefnisins, markmiðum þess og mikilvægi samstarfs milli skóla, fræðasamfélags og grasrótarstarfs.

Skólaheimsóknir – samtal og eftirfylgni

Í kjölfar námsstefnunnar voru skipulagðar heimsóknir í skóla víðs vegar um landið. Þar fengu kennarar og starfsfólk tækifæri til að ræða eigin reynslu, áskoranir og spurningar í nánara samhengi. Skólaheimsóknirnar sýndu skýrt að þörfin fyrir fræðslu, stuðning og tengslamyndun milli skóla í ólíkum landshlutum er mikil.

Margt getur komið upp í daglegu skólastarfi og oft standa kennarar einir með flókin mál. Því er mikilvægt að skapa vettvang þar sem hægt er að læra hvert af öðru, deila lausnum og byggja upp sameiginlega þekkingu.

Fræðsla, miðlun og framtíðarsýn

Á heimasíðu Hinsegin Lífsgæða, rainbowsquare.org, má finna fyrirlestra og annað efni sem tengist verkefninu og getur nýst sem stuðningur fyrir skóla og fagfólk. Markmiðið er að halda áfram að byggja upp lifandi þekkingarbankann og efla tengsl milli þeirra sem starfa að velferð hinsegin barna og ungmenna.

Horft er til framtíðar með bjartsýni. Hugmyndir eru um að setja á laggirnar hlaðvarp þar sem kennarar, foreldrar og hinsegin nemendur geta deilt reynslu sinni og sjónarmiðum. Ef fjármagn fæst er jafnframt stefnt að því að halda aðra námsstefnu á Akureyri á næsta ári, í samstarfi við Háskólann á Akureyri, þar sem áfram verður unnið að því að gera skólaumhverfi á Íslandi jákvæðara, öruggara og inngildandi fyrir alla nemendur.

Previous
Previous

Fundir stýrihóps og ráðstefna Hinsegin Lífsgæða í Sollentuna í Svíþjóð

Next
Next

Hinsegin stuðningur í skólaumhverfinu